top of page

UM HÓPINN

Leikhópurinn Lotta var stofnaður haustið 2006. Að stofnun hans komu níu einstaklingar sem allir áttu það sameiginlegt að hafa brennandi áhuga á leiklist og áttu ákaflega bágt með þá hefð leikhúsanna að fara í sumarfrí. Hvað eiga áhugasamir áhugaleikarar af sér að gera á sumrin þegar leikhóparnir leggjast allir í dvala? Svarið lá í augum uppi.

Það er ekki auðvelt að stofna leikhóp og ekki ókeypis heldur en liðsmenn Lottu voru stórhuga. Fyrsta Lottan (við köllum bílinn okkar Lottuna) var keyptur út á krít hjá fjármálafyrirtækjunum og kerra undir leikmyndina var leigð af kerruleigu. Stórsmellurinn Dýrin í Hálsaskógi varð fyrir valinu sem fyrsta verkið sem yrði sett upp enda urðum við að treysta á að sýningin myndi draga að sér áhorfendur svo hægt væri að standa í skilum við fjármálastofnanir. Við renndum hálf blint í sjóinn og vissum alls ekki hvaða ævintýri við værum að leggja út í.

Skemmst er frá því að segja að strax á frumsýningunni var ljóst að við vorum að gera eitthvað rétt. Elliðaárdalurinn fylltist af fólki þegar Lotta frumsýndi í fyrsta sinn þann 20 maí árið 2007. Þetta fyrsta sumar sýndum við á yfir 40 stöðum víðsvegar um landið og hvar sem við komum var okkur tekið fagnandi. Um 15 þúsund manns sáu Dýrin í Hálsaskógi í meðförum Lottu þetta sumar og síðan þá hefur áhorfendum okkar farið fjölgandi með hverju árinu.

Sumarið 2012 var Leikhópurinn Lotta tekinn inn í Sjálfstæðu leikhópana og síðan þá telst hópurinn til atvinnuleikhópa.

Sjórn Lottu er skipuð fjórum einstaklingum, þeim Önnu Beggu, Baldri, Rósu og Steina. Þau hafa öll verið í Lottu frá stofnun hans (utan Rósu sem stimplaði sig rækilega inn þegar hún tók aðalhlutverkið í Galdrakarlinum í Oz sumarið 2008). Lottan telur þó fleiri meðlimi því á ári hverju koma mun fleiri aðilar að uppsetningu hvers verks. Við lítum á þetta svolítið eins og skátarnir „eitt sinn Lotta, ávallt Lotta“ og verður því öllum meðlimum Lottu, bæði fyrr og síðar gerð skil á þessari síðu.

LEIKHÓPURINN LOTTA

ALLIR FRÁ UPPHAFI

ALLAR LOTTUR
bottom of page