top of page

Guðrún Sóley er leikstjóri og sviðslistakona búsett í Glasgow, Skotlandi. Hún vann með Leikhópnum Lottu sumarið 2010 þegar hún tók að sér hlutverk Mömmu og Heklu í Hans klaufa í fjarveru Önnu Beggu. Hún var einnig tilbúin að hlaupa í skarðið fyrir Önnu Beggu í Litalandi en þá var óvíst hvort hún næði að leika allar sýningarnar sökum óléttu.

 

Guðrúnu Sóley fannst skemmtilegast að fá tækifæri til að sýna fyrir krakka um allt land og að vinna með frábærum leikurum. Það skemmtilegasta sem hún upplifði með Lottu var þegar hún sýndi Hans klaufa á Ísafirði 2010 í brjáluðu veðri þar sem kastalinn fauk um koll, Sölvi prins stökk til og bjargaði Öskubusku frá því að verða fyrir kastalanum! Þetta ótrúlega óvænta atriði passaði fullkomlega inn í leiksýninguna og uppskar mikil fagnaðarlæti.

 

Guðrún Sóley útskrifaðist úr leiklistarskólanum Royal Conservatoire of Scotland á síðasta ári og er búsett í Glasgow í Skotlandi. Hún vinnur að allskyns listrænum verkefnum, mestmegnis sem leikstjóri en einnig býr hún til sín eigin verk. Þessa dagana er Guðrún Sóley að vinna að þremur nýjum leiksýningum; meðal annars leikstýrir hún nýju verki með ungu fólki í einu af stærstu leikhúsunum í Glasgow. Hún hefur alltaf haft áhuga á leikhúsi en það má segja að vinna hennar með Lottu hafi kveikt áhugann fyrir því að vinna með ungu fólki. Guðrún Sóley hefur séð allar sýningar Lottu og hlakkar ávallt til þeirrar næstu!

GUÐRÚN SÓLEY SIGURÐARDÓTTIR

bottom of page