top of page

Snæbjörn Ragnarsson, betur þekktur undir nafninu Bibbi, hefur verið viðriðinn Lottu í mörg ár en margir þekkja hann einnig úr hljómsveitinni Skálmöld og svo muna eflaust margir eftir stórkostlegri sviðsframkomu hans í Eurovision með hljómsveitinni Pollapönk í laginu Enga fordóma.

LEIKSVIÐ

Bibbi hefur skrifað á annan tug leikrita sem sett hafa verið upp hingað og þangað, meðal annars í Borgarleikhúsinu, hjá Leikfélagi Akureyrar og af Leikhópnum Lottu. Hann var tilnefndur til Grímuverðlauna fyrir Láp, Skráp og jólaskapið og BóluHjálmar árið 2009 og hlaut verðlaunin fyrir seinna verkið.

 

SJÓNVARP

Hann hefur skrifað eitt og annað en hér skal tiplað á því sem hæst hefur farið. Bibbi var einn af fjórum í ritgengi fyrir Ævintýri Stígs og Snæfríðar sem sýnd voru í Stundinni okkar árin 2006–2008, 60 þættir, um 12 mínútur hver. Við annan mann skrifaði hann Hjálpfús, 16 þættir og um 6 mínútur hver, fræðsluefni fyrir Rauða krossinn.

 

TÓNLIST

Eftir Bibba liggur mýgrútur af tónlist sem flutt hefur verið í hinum ýmsu leikritum, tækifærislög sem hafa lifað mislengi og hefur gefið út á þriðja tug hljómplatna með einum eða öðrum hætti. Helst ber þó að nefna stöður hans í hljómsveitunum Skálmöld, Ljótu hálfvitunum og Innvortis. Í Skálmöld er hann bassaleikari, textahöfundur bandsins, laga- og hugmyndasmiður. Hann hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin 2014 sem textahöfundur ársins. Skálmöld hefur komið öllum sínum útgáfum í gullsölu, spilað með Sinfóníuhljómsveit Íslands og sett upp sýningu með Borgarleikhúsinu. Að auki túrar sveitin reglulega erlendis og eftir Skálmöld liggja nú 4 plötur. Fyrir Ljótu hálfvitana hefur hann samið texta og lög, spilar þar á allskonar hljóðfæri og syngur. Hálfvitar hafa einnig komið sínu efni í gullsölu og gefið út 5 plötur. Sem meðlimur Innvortis semur hann 90% af öllu efni, forsyngur og spilar á gítar. Þar liggja 2 útgefnar plötur. Þá hefur hann farið utan í Eurovision sem bakraddasöngvari. Já og dansari vitanlega.

 

RITVERK

Árið 2016 kom út skáldsagan Gerill, og tónlist tengd bókinni.

 

ANNAÐ

Bibbi starfar í dag á auglýsingastofunni PIPAR\TBWA sem samfélagsmiðlafulltrúi, hugmynda- og textasmiður og hefur gert í þrjú og hálft ár. Til viðbótar við það hefur hann mikla reynslu af öðru hugmynda- og markaðsstarfi og hefur til að mynda leitt hugmynda- og markaðsvinnu fyrir hljómsveit sína Skálmöld. Hann hefur komið að framkvæmd tónlistarviðburða á borð við Eistnaflug, Rokkjötna og fleiri, gripið í leikstjórn, tónlistarstjórn, pródúserað plötur og tónlist fyrir hina og þessa og prómóterað sýningar, hljómsveitir, viðburði og fleira. Snæbjörn spilar mikið af tölvuleikjum og les teiknimyndasögur.

SNÆBJÖRN RAGNARSSON

bottom of page