top of page

Anna Begga hefur verið með í Leikhópnum Lottu allt frá stofnun hans. Það má eiginlega segja að hún sé heilinn á bakvið hópinn, viðskiptafræðingurinn sem reiknar dæmið til enda og setur allt upp í excel.

 

Anna Begga ætlaði nefnilega aldrei að verða leikona. Hún gekk í Menntaskólann í Kópavogi og var þar á hagfræðibraut þaðan sem hún fór í viðskiptafræðinám í Háskólanum á Bifröst. Við útskrift fékk hún draumadjobbið (eða það hélt hún) þegar hún var ráðin í Verðbréfadeild Íslandsbanka. Allan þennan tíma var Begga þó með annan fótinn á leiksviðinu en hún lék bæði í skólaleikritum og með áhugaleikfélögunum Hugleik og Sýnum meðfram námi og vinnu.

 

Strax fyrsta sumarið sem Lotta var starfandi ákvað Anna Begga að þetta væri eitthvað sem hún vildi halda áfram að gera. Með smá leit á internetinu komst hún að því að vefsíðan jolasveinar.is var laus og festi hún kaup á henni. Með Lottu og jólasveinana í farteskinu gekk Begga svo á fund yfirmanns síns í síðasta sinn og sagði skilið við bankann. Síðan þá hefur viðskiptafræðingurinn eingöngu unnið störf sem tengjast sviðslistum á einhvern hátt.

 

Anna Begga hefur leikið í öllum verkum Lottu fyrir utan Gilitrutt en árið 2012 ferðaðist hún um Afríku á meðan hópurinn lék sér við tröllskessuna. Begga tók þó þátt á sinn hátt því hún skrifaði verkið um tröllskessuna vondu. Reyndar hefur hún skrifað öll leikrit Lottu frá Mjallhvíti árið 2010 og á til að mynda líka alla söngtexta í sýningunni um Ljóta andarungann.

ANNA BERGLJÓT THORARENSEN

bottom of page